Fara í efni

Ávarp formanns á aðalfundi Einingar-Iðju 2025

Ágætu félagar

Það eru alltaf ákveðin tímamót þegar haldinn er aðalfundur í félaginu okkar þar sem farið er yfir atburði síðasta árs. Eins og áður er óhætt að segja að mikið hefur verið að gera hjá okkur.

Á aðalfundarvefnum, sem má sjá hér fyrir aftan mig, má bæði finna ársreikninginn í heild sinni sem og allskyns upplýsingar um starfsemi félagsins á síðasta starfsári.

Á starfsárinu var samið við ríki og sveitarfélög á sömu nótum og samið var á almenna markaðinum í byrjun síðasta árs. Einnig var gerður nýr kjarasamningur við Heilsuvernd þar sem farið var úr sveitarfélaga umhverfi yfir í ríkis umhverfi, sem eru keimlík. Grunnur að nýjum samningi er ríkissamningurinn en hann ber þess þó merki að um er að ræða einkafyrirtæki sem býður upp á og rekur þjónustuna. Mjög litlar breytingar urðu við þessa tilfærslu fyrir núverandi starfsfólk og breyttust réttindi lítið sem ekkert. Nýir starfsmenn eru ráðnir inn á ríkissamninginn.

Þann 1. nóvember sl. var tekið í notkun nýtt félagakerfi sem byggist upp á persónublaði hvers félagsmanns. Mínar síður byggjast upp á persónublaðinu og eru mjög notendavænar og bjóða ennfremur upp á fjölbreytta möguleika til gagnvirkni, þannig að félagsmenn geta sinnt mörgum sínum málum sjálfir. Á persónublaðinu er að finna yfirlit yfir félagsgjöld skipt eftir mánuðum og atvinnurekendum. Jafnframt má þar sjá réttindi í sjóðum og hvernig þau hafa verið nýtt. Þar inni er einnig hægt að sækja um orlofshús, fræðslustyrki, sjúkrastyrki og sjúkradagpeninga. Þá er þar hægt að skrá starfsstöð, senda inn fyrirspurn til félagsins eða stofna mál.

Ég hvet allt félagsfólk til að fara inn á Mínar síður, skoða þær og uppfæra upplýsingar ef þarf, eins og síma, netfang og bankaupplýsingar. Ef netfangið er rétt getur verið að það þurfi að staðfesta það.

Ég hvet líka alla til að skrá starfsstöð, sérstaklega ef viðkomandi félagsmaður starfar hjá ríkinu, sveitarfélagi eða hjá fyrirtæki með margar starfsstöðvar. Þegar félagið fær skilagrein frá stóru sveitarfélagi eða stórum vinnustað með margar starfsstöðvar þá eru tugir eða jafnvel hundrað nafna á skilagreininni en engar frekari upplýsingar. Því er það við t.d. afgreiðslu kjarasamninga, kosninga um verkföll og aðrar afgreiðslur félagsins, að leggja þarf í mikla vinnu við kjörskrá sem eykur hættuna á að einhverjir lendi utan kjörskrár. Hvað varðar trúnaðarmannakosningar er ljóst að félagsmenn Einingar-Iðju um allt félagssvæðið eiga rétt á fleiri trúnaðarmönnum en þeim sem eru í dag. Ein leið til að tryggja að sem flestar starfsstöðvar geti kosið sér trúnaðarmann er að skrá sig á viðkomandi starfsstöð. Á heimasíðu félagsins má finna góðar leiðbeiningar fyrir helstu aðgerðir á Mínum síðum félagsins.

Starfsmenn félagsins hafa lagt á sig mjög mikla vinnu við að taka nýja kerfið í notkun. Undirbúningur stóð lengi yfir og var reynt að flýta sér hægt og vanda til verka. Kerfið er í stöðugri þróun og á næstunni munum við taka í notkun vefverslun þar sem m.a. verða til sölu veiðikort og útilegukort ásamt niðurgreiddum hótelmiðum.

Ég minntist áðan á mikilvægi þess að skrá sig á starfsstöð ef það á við, m.a. vegna kosningu trúnaðarmanna. Ég þreytist ekki á að segja að það að hafa öflugt trúnaðarmannakerfi er gullkista hvers félags. Trúnaðarmennirnir eru augu og eyru félagsins á hverjum vinnustað sem geta fylgst með að allt sé í lagi hvað varðar réttindi og skyldur vinnufélaganna.

Síðasta haust hvöttum við trúnaðarmenn til að bjóða okkur á vinnustaðafundi og er ánægjulegt að segja frá því að þeir hafa verið duglegir að fá okkur á fundi. En alltaf má gera betur og því hvet ég trúnaðarmenn aftur til að vera duglega að halda slíka fundi og fá starfsmenn félagsins á þá.

Það eru liðin 50 ár frá því að konur hér á landi lögðu niður launuð sem ólaunuð störf sín og stöðvuðu þannig samfélagið. Þrátt fyrir þrotlausa baráttu í hálfa öld búa konur enn við misrétti og ofbeldi.

Í ár er Kvennaár og ákvað ASÍ að leggja áherslu á erlendar konur þar sem innflytjendur eru alla jafna ekki með mikið bakland og eiga oft erfitt með að átta sig á hvort þau séu á réttum launum og réttindin séu í lagi.

Fjölmargir viðburðir verða um land allt til að fagna þessum tímamótum og munu stéttarfélögin á okkar svæði standa fyrir sýningu á kvikmyndinni Dagurinn sem Ísland stöðvaðist en það er ekki komin tímasetning á myndina en við munum auglýsa það vel.

Þá munu stéttarfélögin bjóða konum í lautartúr í Lystigarðinum á Akureyri þann 19. júní nk. og vera þar með lifandi tónlist. Við hvetjum allar konur til að mæta.

Það verður ekki kvennaverkfall þann 24. október en nú er unnið að skipulagningu viðburðar til að minnast 50 ára afmælisins.

Í síðustu kjarasamningum á almenna markaðinum vorið 2024 náðist sátt um að bæta kjör starfsfólks í ræstingum umtalsvert og umfram aðra hópa. Frá því í haust hafa fjölmargir félagsmenn sem starfa við ræstingar leitað til okkar vegna launalækkunar. Þannig að kjör þeirra nú eru jafnvel lakari en fyrir gerð síðustu kjarasamninga.

Málið snýst um ákvæði í kjarasamningum sem kallast tímamæld ákvæðisvinna, en samkvæmt því er gert ráð fyrir að starfsfólkið klári tiltekin þrif innan ákveðinna tímamarka, nokkuð sem kallar yfirleitt á aukinn vinnuhraða. Fyrir það á að greiða 20% álag ofan á tímakaup.

Mörg ræstingarfyrirtæki hafa farið þá leið að breyta ráðningarfyrirkomulagi úr kerfi tímamældrar ákvæðisvinnu yfir í tímakaup, án þess að vinnufyrirkomulagi sé breytt. Þau dæmi sem komið hafa á borð verkalýðsfélaga sýna að starfsfólki er áfram gert að klára tiltekin þrif innan ákveðins tíma og ljóst að enn er unnið á auknum vinnuhraða, án þess að starfsfólk fái álagið greitt. Það er klárt kjarasamningsbrot.

Álag margra er ómanneskjulegt og sumum hótað uppsögn samþykkti það ekki lækkunina. Þarna erum við að tala um láglaunastörf þar sem konur eru í miklum meirihluta.

Mér finnst þetta ekki ríma mjög fallega inn í þá umræðu og stöðu sem er í þjóðfélaginu okkar í dag

Það er í gangi mikil vinna í samráðshópi innan ASÍ og SGS félaga vegna þessa máls og er Tryggvi varaformaður í honum fyrir okkar hönd.

Ég verð að minnast á gervistéttarfélagið Virðingu og kjarasamning sem það gerði við Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT). Þessi samningur er ekki í nokkru samræmi við þá samninga sem eru í gildi í veitingageiranum og felur í sér verulegar skerðingar á launum og réttindum starfsfólks.

Það hryggir mig mjög að vita að stór og rótgróin fyrirtæki hér í bæ eru að taka þátt í þessum leik. Þarna er ég að tala um Greifann og K6 en þar undir eru Bautinn, Rub23 og Sushi Corner.

Þrátt fyrir að dagvinnutaxti í þessum samningi sé lítillega hærri en í kjarasamningi við SA, þá eru launakjörin umtalsvert lakari fyrir þorra starfsfólks á veitingahúsamarkaði. Skýrist það af því að tíminn milli 17:00 og 20:00 telst einnig til dagvinnutíma og eru því greidd dagvinnulaun fyrir vinnu á þeim tíma. Í samningum við SA er hins vegar greitt álag á þessum tímum. Sömuleiðis er álagsprósenta fyrir kvöld- og helgarvinnu lægri en í samningum við SA.

Virðing er ekki raunverulegt stéttarfélag heldur svikamylla rekin af atvinnurekendum í þeim tilgangi að skerða laun og réttindi starfsfólks.

Samkeppniseftirlitið hefur hafið rannsókn á hugsanlegum samkeppnislagabrotum í tengslum við stofnun stéttarfélagsins Virðingar. Meint brot teljast alvarleg og geta varðað sektum eða fangelsi.

Við Íslendingar förum yfirleitt snemma út á vinnumarkaðinn og eru okkar ungmenni dugleg að sækja styrki í fræðslusjóði félaganna, eins og t.d. vegna bílprófs. Virðing er ekki með fræðslusjóð þar af leiðandi eiga þessi ungmenni ekki rétt á styrk.

Ég bið allt starfsfólk í veitingageiranum sem hefur verið sagt af atvinnurekanda að það eigi að starfa undir kjarasamningi Virðingar við atvinnurekendafélagið SVEIT eða þá að þau hafi verið færð yfir af atvinnurekanda að hafa samband við félagið án tafar. Tilgangur þess er að fá starfsfólk til að samþykkja lægri laun og verri kjör.

Á skrifstofum félagsins hafa verið þó nokkrar breytingar hvað mannskap varðar frá síðast aðalfundi.

Ásta Guðný Kristjánsdóttir hóf störf hjá félaginu þann 1. júní sl. sem verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits fyrir Eyjafjarðar-svæðið og Norðurland vestra og sem ráðgjafi á kjarasviði.

Frá og með 1. júlí í fyrra urðu breytingar varðandi þrif á skrifstofu félagsins á Akureyri en núna fer ræstingin fram á dagvinnutíma. Íris Björk Árnadóttir lét af störfum frá þeim tíma og tók Máni Sól Pálsdóttir við af henni fram í september þegar Karolina Joanna Gaworska var ráðin.

Magnús Smári Smárason, sem hóf störf hjá félaginu sem lögfræðingur og þjónustufulltrúi þann 1. apríl lét af störfum í nóvember og færði sig um set yfir til Háskólans á Akureyri. Nýlega var Glódís Ingólfsdóttir ráðin inn á kjarasvið og mun hún hefja störf í síðasta lagi þann 1. júní nk.

Breytingar urðu á skrifstofu félagsins í Fjallabyggð þegar starfsmaður félagsins þar, Þórey Sigurjónsdóttir, ákvað fyrr á árinu að breyta aðeins til og fara niður í 50% starfshlutfall. Ákveðið var að ráða inn annan starfsmann í 50% stöðu. Ína Sif Stefánsdóttir var ráðin og hóf hún störf 14. mars sl.

Ákveðið var að ráða inn sumarafleysinga starfsmann í hálfa stöðu á skrifstofuna á Akureyri í sumar og var Valgerður Ómarsdóttur ráðin til starfa á tímabilinu 1.júní til 31.ágúst.

Öllum þeim sem létu af störfum frá síðast aðalfundi þakka ég fyrir þeirra góðu störf fyrir félagið og býð nýtt fólk velkomið til starfa.

Starfsfólki félagsins öllu færi ég mínar bestu þakkir fyrir góð störf og ekki síst þann óbilandi vilja að gera félagið að því fyrirmyndarfélagi sem Eining-Iðja er. Það er valinn maður í hverju rúmi, allir eru tilbúnir að vinna sem ein heild í okkar þágu.

Takk fyrir öll samskiptin á starfsárinu. Ég vil hvetja ykkur félagsmenn til að vera í sambandi við stéttarfélagið ykkar, það eruð þið sem greiðið okkur launin. Látið endilega vita ef við getum einhversstaðar gert betur.

Að lokum áður en ég sný mér að hefðbundinni skýrslu stjórnar þá langar mig að segja að ég ákvað að bjóða mig fram til formanns í síðasta skipti. Ég hef ekki áhyggjur af framtíð félagsins þar sem það er valinn maður í hverju rúmi. Með sterkri stjórn félagsins, frábæru starfsfólki, öflugum trúnaðarmönnum og öllu okkar félagsfólki er framtíðin björt.

Eins og ég sagði í upphafi þá má á aðalfundarvefnum bæði finna ársreikninginn í heild sinni sem og allskyns upplýsingar um starfsemi félagsins á síðasta starfsári.

Aðalfélagar í árslok 2024 voru 7.466.

4.953 félagsmenn fengu einhverskonar styrk eða endurgreiðslu kostnaðar á síðasta ári. 1.202 fengu starfsmenntastyrki, 1.842 fengu styrki úr sjúkrasjóði, 1.703 fengu orlofsstyrk eða orlofshús og 206 einstaklingar fóru í orlofsferð á vegum félagsins eða í leikhús þetta starfsárið.

Varðandi greiðslur til félagsmanna á árinu þá voru þær alls um 498 milljónir króna, sem er hækkun á milli ára um 55 milljónir. Greiðslur úr sjúkrasjóðnum voru tæpar 300 milljónir. Greiðslur úr fræðslusjóði rúmar 74 milljónir og úr orlofssjóði rúmar 124 milljónir.

Hermann Brynjarsson mun fara yfir reikninga félagsins hér á eftir, en á árskýrsluvefnum okkar má m.a. sjá lykiltölur og samanburð við árið á undan.

Ef við skoðum aðeins fjárveitingar úr sjúkrasjóði betur þá fengu 267 félagsmenn dagpeninga eða dánarbætur, alls tæpar 242 milljónir miðað við rúmar 208 milljónir árið áður. 2.205 styrkir voru veittir, alls um 58,1 milljón sem er svo að segja sama upphæð og árið á undan.

Alls voru því greiddar tæpar 300 milljónir sem er hækkun um rúmar 33,5 milljónir milli ára.

Vert er að minna enn og aftur á samstarfssamning sem félagið er með við SÍMEY með það að markmiði að skapa enn fleiri möguleika fyrir félagsmenn til að sækja sér fræðslu og auka við starfstengda hæfni sína.

SÍMEY býður upp á fjöldamörg námskeið sem eru bæði starfstengd og tengd áhugamálum hvers og eins. Áhugasamir geta kíkt á www.simey.is til að sjá framboð námskeiða.

Á vef félagsins og á aðalfundarvefnum má sjá reglur fræðslusjóðanna þriggja um endurgreiðsluhlutfall styrkja.

1.202 félagsmenn, 677 konur og 525 karlar, fengu einstaklingsstyrki úr sjóðunum. Þetta er aukning um 148 félagsmenn frá árinu áður. Upphæðin sem greidd var hækkaði um tæpar 2 milljónir og var rúmar 74 milljónir.

Á aðalfundarvefnum okkar má finna aldursdreifingu styrkþega og yfirlit yfir helstu námskeið. Tengiliður við menntasjóðina er Aðalbjörg G. Hauksdóttir og hefur hún einnig umsjón með félagslegri fræðslu hjá félaginu.

Tryggvi varaformaður sér um starfs- og tómstundanámskeið sem félagið heldur. Endilega hafið samband við hann ef þið eruð með hugmynd um námskeið.

Nýting orlofshúsa hefur verið mjög góð. Félagið á núna 22 orlofshús og sex orlofsíbúðir, auk þriggja sjúkraíbúða. Auk húsa og íbúða sem eru í eigu félagsins vorum við með orlofsbústaði víðsvegar um landið í skiptum fyrir orlofshús á Illugastöðum auk leigubústaða.

Ég vil minna á að gæludýr eru stranglega bönnuð í öllum húsum og íbúðum félagsins nema í húsi félagsins í Húsafelli. Stjórn félagsins ákvað að frá síðustu áramótum að fara af stað með tilraunaverkefni og leyfa þar til prufu gæludýr. Auðvitað er lausaganga gæludýra stranglega bönnuð á svæðinu og algjörlega nauðsynlegt er að hirða upp eftir dýrin. Ef upp kemst um lausagöngu og ef umgengni er slæm má viðkomandi félagsmaður eiga von á að fá sekt eða bókunarbann í orlofshúsum félagsins.

Fyrirtækið Sólar ehf. hefur umsjón með íbúðum félagsins á höfuðborgarsvæðinu. Leigjandi þarf ekki að þrífa íbúðina eftir leigutíma, en auðvitað þarf að skila henni fullfrágenginni og snyrtilegri. Leigutakar þurfa sjálfir að þrífa orlofshúsin áður en þeim er skilað.

Best er að skilja við hús og íbúðir eins og við viljum koma að þeim. Verði vanhöld á þrifum, að mati umsjónarmanns á viðkomandi svæði, má búast við að leigutaki þurfi að borga þrifagjald.

Félagar! Höfum í huga að orlofshúsin eru sameign okkar allra og því er nauðsynlegt að við sameinumst um að ganga um þau með því hugarfari.

Félagið úthlutaði 275 orlofsstyrkjum „Orlof að eigin vali“ af þeim 300 sem í boði voru. Hver styrkur var að hámarki 27.000 krónur.

Í fyrra var boðið upp á þrjár ferðir fyrir félagsmenn, en mjög vond veðurspá kom í veg fyrir dagsferð sem fara átti í Kerlingafjöll í ágúst.

Ferðanefnd félagsins ákvað á fundi árið 2024 að bjóða upp á utanlandsferð annað hvert ár og verður næsta utanlandsferð í boði á árinu 2026. Jafnframt var ákveðið að það ár sem ekki verður boðið upp á utanlandsferð að þá verði boðið upp á veglegri "Fjallaferð."

Í ár eru því tvær ferðir í boði og stendur skráning yfir í þær.

  • 24. júní -Árleg dagsferð fyrir aldraða félagsmenn.
  • 21. og 22. ágúst - "Fjallaferð" Einingar-Iðju á Austurland.

Nánar má fræðast um þessar ferðir á heimasíðu félagsins.

Eins og áður er alltaf mikið um fundi hjá félaginu, m.a. í aðalstjórn og deildarstjórnum, í svæðisráðum, trúnaðarráði og samninganefnd. Vinnustaðafundir eru haldnir, fundir með einstökum hópum um tilfallandi mál og síðan eru starfsmenn oft kallaðir til aðstoðar við lausn ýmissa mála á vinnustöðum. Fjölmargir aðrir fundir hafa verið haldnir, t.d. með trúnaðarmönnum um ýmis mál. Einnig mættu fulltrúar félagsins á ýmsa aðra fundi fyrir hönd þess.

Tveir fundir voru haldnir í trúnaðarráðinu og tveir í uppstillingarnefnd. Betur gekk í ár að fá félagsfólk til að gefa kost á sér í trúnaðarráð en undanfarin ár.

Ellefu fundir voru haldnir í stjórn félagsins þar sem fjölmörg mál voru tekin fyrir. Vert er að benda á að stjórnarmenn fá afhent á hverjum fundi uppfært yfirlit yfir rekstur félagsins. Þannig veit stjórnin alltaf hvernig staðan er miðað við áætlun sem gerð er í upphafi hvers árs. Á aðalfundarvefnum má finna helstu mál sem tekin voru fyrir á stjórnarfundunum.

Á hverju ári eru haldnir nokkrir almennir félagsfundir á þéttbýlissvæðunum utan Akureyrar, engin breyting varð á því þetta starfsárið.

Aðalfundir starfsgreinadeildanna fóru fram í byrjun febrúar. Mjög dræm mæting var á fundina en þrátt fyrir það tókust þeir mjög vel. Skýrslur stjórna má finna á heimasíðu félagsins. Formenn og varaformenn deilda eru sjálfkjörnir í stjórn félagsins.

  1. þing Alþýðusambands Norðurlands fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal í október og átti félagið þar 38 fulltrúa.
  2. þing ASÍ fór fram í Reykjavík í október og átti félagið þar 10 fulltrúa.

ASÍ-UNG hélt sitt árlega þing í nóvember og fór það að þessu sinni fram á Hellu. Elsa Hrönn Gray Auðunsdóttir frá Einingu-Iðju var endurkjörin í stjórn.

Nánari umfjöllum um alla þessa fundi og þing má finna á aðalfundarvefnum okkar undir liðnum aðalfundargögn.

Heimasíðan var eins og áður vel virk og mjög vel sótt af félagsmönnum og öðrum. Félagið er líka á Facebook og svo detta líka inn ýmsar tilkynningar og ábendingar á Instagram síðu félagsins þannig að það er um að gera að fylgjast líka vel með henni. Ef þið viljið koma einhverjum ábendingum varðandi hana til okkar þá er best að hafa samband við hann Ödda.

Við sem störfum á skrifstofunum þökkum fyrir öll samskiptin á árinu og vonum að okkur hafi tekist að greiða úr sem flestu af því sem komið var með til okkar, hvort sem var í heimsóknum, síma eða á neti.

Ég vona að við munum áfram eiga góð samskipti og berum gæfu til að gera góða hluti á komandi starfsári.

Að lokum vil ég þakka öllum sem ég hef starfað með á árinu fyrir samstarfið.

Takk fyrir mig og takk fyrir hönd stjórnar og starfsmanna félagsins.

 

 

Til baka á forsíðu