Ávarp formanns á aðalfundi Einingar-Iðju 2024
Ágætu félagar,
Það eru alltaf ákveðin tímamót þegar haldinn er aðalfundur í félaginu okkar, ekki síst í dag þegar við tökum í notkun nýjan aðalfundarvef eða árskýrsluvef félagsins. Á vefnum, sem má sjá hér fyrir aftan mig, má bæði finna ársreikninga í heild sinni sem og allskyns upplýsingar um starfsemi félagsins á síðasta starfsári.
Það er liðið ár síðan ég tók við formennsku og eins og ég hef alltaf vitað þá næ ég aldrei að ganga í fótsporin hans Bjössa en sem betur fer hefur hann alltaf verið tilbúinn að aðstoða þegar á þarf að halda. Nýr varaformaður kom einnig inn á síðasta starfsári og má segja að fyrsta árið okkar hafi verið lærdómsríkt. Okkur Tryggva hefur gengið mjög vel að vinna saman með Björn svona aðeins á kantinum. Óhætt er að segja að árið er búið að vera viðburðaríkt, mjög mikið hefur verið að gera og margt að læra.
Allir samningar losnuðu í byrjun þessa árs. Á almenna markaðinum var samið til fjögurra ára með von um að vextir og verðbólga lækki verulega en það kemur sér vel fyrir alla. Í samningnum náðist mikilsverður árangur í því að bæta kjör ræstingafólks. Til viðbótar við aðrar umsamdar hækkanir samningsins hækkaði ræstingafólk um tvo launaflokka. Það þýðir að í lok samningstíma munu grunnlaun þeirra hafa hækkað um allt að 6 þúsund krónur umfram aðrar launahækkanir, og skilar sú viðbótarhækkun sér inn í vakta- og yfirvinnuálög.
Þá kemur til viðbótar sérstakur ræstingaauki að upphæð 19.500 kr. á mánuði miðað við fulla vinnu. Ræstingaaukinn bætist við laun frá og með ágústlaunum 2024, og verður sér lína á launaseðli sem hækkar ekki vakta- eða yfirvinnuálög.
Þetta er mjög ánægjulegt, sérstaklega í ljósi niðurstöðu skýrslu Vörðu sem kom út á síðasta ári og fjallaði um lífsskilyrði fólks sem starfar við ræstingar.
Ríkið kom verulega inn í samningana með loforð upp á 20 milljarða á ári, næstu fjögur árin. Sveitarfélögin lofuðu einnig að draga úr hækkunum á álögum til barnafjölskyldna og börn í skólum fá frítt fæði frá og með næsta hausti.
Með bjartsýni að leiðarljósi getum við ekki annað en trúað því að þetta muni allt ganga eftir en til að vera með öryggisventil þá voru sett inn ákveðin rauð strik í samninginn og því verður hægt að segja honum upp ef þarf. Ef svo fer þá verður ekki hægt að kenna verkafólki um þar sem við sömdum um mjög hógværar launahækkanir.
Samningar við ríki og sveitarfélög eru í vinnslu og eru aðilar sammála um að semja á sömu nótum og á almenna markaðinum.
Við hjá Einingu-Iðju erum alltaf að leita leiða til að virkja okkar félagsmenn betur, ná betur til ykkar og auka virkni ykkar innan félagsins. Til þess notum við t.d. okkar öfluga trúnaðarmannakerfi, samfélagsmiðla og auglýsingar.
Ég er ekki sú fyrsta til að segja að það að hafa öflugt trúnaðarmannakerfi er gullkista hvers félags. Trúnaðarmennirnir eru augu og eyru félagsins á hverjum vinnustað sem geta fylgst með að allt sé í lagi hvað varðar réttindi og skyldur vinnufélaganna. Við höfum alltaf lagt mikið upp úr því að trúnaðarmenn félagsins sæki námskeið til að efla sig í sínu hlutverki og hefur þátttakan yfirleitt verið mjög góð. Í haust sáum við aðsóknina minnka allverulega og þurftum því miður að hætta við nokkur námskeið af þeim sökum.
Við ákváðum því að fara í vinnu til að sjá hvernig best væri að bregðast við þessu. Það fyrsta sem við gerðum var að kalla saman okkar trúnaðarmenn á um 20 fundi í október og nóvember. Þarna gafst þeim tækifæri til að fara yfir ýmis mál með starfsmönnum félagsins og nokkrum öðrum trúnaðarmönnum. Óhætt er að segja að þessir fundir hafi tekist mjög vel og mjög margir sem nýttu tækifærið því mjög margt var tekið fyrir. M.a. var rætt um starf trúnaðarmannsins og tengingu þeirra við félagið, trúnaðarmannanámskeiðin, tímasetningu funda og félagið sjálft. Þar sem trúnaðarmennirnir voru að hittast í fámennum hópum tóku allir þátt í umræðunni og komu með mikilvæga punkta sem félagið fór strax að vinna áfram með.
Greinilegt var að erfitt var fyrir marga að losna úr vinnu til að sækja námskeið og virtust vera þó nokkrar ástæður fyrir því. Sumir fengu hreinlega ekki frí og þó svo að vinnuveitandinn gæfi frí þá vissi trúnaðarmaðurinn sem svo að þá þyrftu vinnufélagarnir bara að hlaupa hraðar vegna manneklu og ákvað því að sleppa námskeiðinu. Þessi staða á ekki bara við okkar félag því við heyrum þetta víða.
Niðurstöður þessara funda voru teknar fyrir á tveggja daga vinnufundi aðalstjórnar sem fram fór um miðjan nóvember. Þennan vinnufund sátu einnig starfsmaður stjórnarinnar, skrifstofustjóri og starfsmenn deildarstjórna. Kristinn Hjálmarsson ráðgjafi hjá Nótera var fenginn til að skipuleggja og stjórna þessum vinnufundi og var hann settur upp þannig að stjórn og stjórnendur fengu vettvang til að horfa til framtíðar og velta upp ólíkum sviðsmyndum og þeirri mynd sem félagið getur tekið á sig á næstu árum með hliðsjón af þróun samfélags, tilgangi og umfangi starfseminnar.
Það fyrsta sem félagsmenn hafa séð úr þessari vinnu er breyttur fundartíma ýmissa funda sem verið hafa undanfarið hjá félaginu, m.a. byrjaði þessi fundur einni klukkustund fyrr en verið hefur undanfarin ár. Þá er nýtt skipulag á trúnaðarmannanámskeiðum tilkomin vegna þessara funda. Skipulagið er enn í vinnslu en m.a. eru námskeiðin styttri, stakir námsdagar í staðin fyrir 2-3 daga lotur, boðið er upp á fjarnámskeið og rafræn námskeið.
Næsta haust munum við leggja púður í að hvetja trúnaðarmenn til að bjóða okkur á vinnustaðafundi þar sem við munum kynna félagið, réttindi og skyldur og ná betri tengslum við félagsmennina okkar. Þessar heimsóknir hafa mikið til legið í dvala síðan fyrir Covid en nú er kominn tími á ný að bretta saman upp ermar og hittast á ykkar heimavelli. Þessar heimsóknir eru skipulagðar af trúnaðarmönnum og í samvinnu við þeirra yfirmenn.
Ég vil aðeins fá að minnast á kvennaverkfallið sem var 24. október sl. Frábær mæting var á viðburðinn á Ráðhústorgi en samt get ég ekki annað en minnst á að sum fyrirtæki á almenna markaðinum hleyptu sínum konum ekki úr vinnu til að taka þátt eða neituðu að greiða laun. Konur hjá ríki og sveitarfélögum sem sinna umönnunarstörfum gátu ekki mætt starfa sinna vegna en það er fullur skilningur á því.
Jafnréttisbaráttan gengur hægt, við erum búin að berjast lengi. Kvennaverkfallið 1974 tókst frábærlega en launamunur kynjanna er enn þónokkur og kvennastörf ennþá talin minna virði í samfélaginu. Baráttunni er alls ekki lokið, við þurfum að halda áfram.
Á skrifstofum félagsins hafa verið þó nokkrar breytingar hvað mannskap varðar frá síðast aðalfundi.
Tryggvi varaformaður hóf störf hjá félaginu um miðjan maí í fyrra.
Margrét Jónsdóttir sem lengi gegndi starfi þjónustufulltrúa á skrifstofu félagsins í Fjallabyggð lét af störfum í fyrra og þökkum við Margréti, sem líka var lengi svæðisfulltrúi svæðisins, fyrir hennar miklu og góðu störf fyrir félagið. Þórey Sigurjónsdóttir var ráðin í hennar stað, en í millibilsástandi sem skapaðist áður en Þórey hóf störf var Halldóra Þormóðsdóttir fengin til að halda skrifstofunni opinni í nokkra mánuði.
Þriðjudaginn 31. október 2023, var síðasti formlegi vinnudagurinn hans Bjössa, og eins og hann sagði sjálfur á aðalfundi félagsins í fyrra þá er hann kominn í langa fríið. Við höfum nú aðeins fengið að trufla hann í langa fríinu þannig að hann slapp ekki alveg frá okkur.
Þann 1. febrúar fækkaði starfsfólki félagsins um fjóra, en VIRK fulltrúarnir fjórir urðu þá starfsmenn VIRK en voru fram að því starfsmenn Einingar-Iðju. Þær starfa eftir sem áður fyrir öll stéttarfélög á svæðinu og hafa áfram aðsetur á skrifstofu Einingar-Iðju á Akureyri. VIRK sagði upp samstarfinu en stefnan hjá þeim er að taka til sín alla VIRK fulltrúa á landinu. Gerður var nýr samningur við VIRK varðandi áframhaldandi leigu á skrifstofum á Akureyri og alla þjónustu við starfsmennina, s.s. kaffistofa, afgreiðsla og símsvörun. Engin breyting varð á þeirra störfum að öðru leiti.
Ákveðið var að fjölga á kjarasviði félagins og hóf Magnús Smári Smárason störf hjá félaginu sem lögfræðingur og þjónustufulltrúi þann 1. apríl sl.
Núna í lok þessa mánaðar mun Ríkarð, sem sinnt hefur starfi verkefnastjóra vinnustaðaeftirlits, láta af störfum hjá félaginu og mun nýr verkefnastjóri, hún Ásta Guðný Kristjánsdóttir, hefja störf þann 1. júní nk.
Öllum þeim sem létu af störfum frá síðast aðalfundi þakka ég fyrir þeirra góðu störf fyrir félagið og býð nýtt fólk velkomið til starfa.
Vegna aukningar á starfsmönnum þurfti félagið að segja upp leigusamningi við Byggiðn. Þeir munu síðar í mánuðinum færa sig upp um eina hæð í húsinu, en félagið hefur í langan tíma leigt eina skrifstofu hjá okkur.
Starfsfólki félagsins öllu færi ég mínar bestu þakkir fyrir góð störf og ekki síst þann óbilandi vilja að gera félagið að því fyrirmyndarfélagi sem Eining-Iðja er. Það er valinn maður í hverju rúmi, allir eru tilbúnir að vinna sem ein heild í okkar þágu.
Takk fyrir öll samskiptin á þessu fyrsta ári mínu sem formaður félagsins. Ég vil hvetja ykkur félagsmenn til að vera í sambandi við stéttarfélagið ykkar, það eruð þið sem greiðið okkur launin. Látið endilega vita ef við getum einhversstaðar gert betur.
Nú sný ég mér að hefðbundinni skýrslu.
Aðalfélagar í árslok 2023 voru 8.024.
4.887 félagsmenn fengu einhverskonar styrk eða endurgreiðslu kostnaðar á síðasta ári. 1.054 fengu starfsmenntastyrki, 1.784 fengu styrki úr sjúkrasjóði, 1.771 fengu orlofsstyrk eða orlofshús og 278 einstaklingar fóru í orlofsferð á vegum félagsins eða í leikhús þetta starfsárið.
Varðandi greiðslur til félagsmanna á árinu þá voru þær alls um 443 milljónir króna, sem er hækkun á milli ára um 64 milljónir. Greiðslur úr sjúkrasjóðnum voru rúmar 266 milljón. Greiðslur úr fræðslusjóði rúmar 72 milljónir og úr orlofssjóði rúmar 104 milljónir.
Hermann Brynjarsson mun fara yfir reikninga félagsins hér á eftir, en á nýja vefnum okkar má m.a. sjá lykiltölur og samanburð við árið á undan.
Ef við skoðum aðeins fjárveitingar úr sjúkrasjóði betur þá fengu 183 félagsmenn dagpeninga eða dánarbætur, alls rúmar 208 milljónir miðað við rúmar 180 milljónir árið áður. 1.601 fengu styrki, alls um 58,1 milljón miðað við um 41,3 milljónir árið áður.
Alls fengu því 1.784 félagsmenn greitt á síðasta ári úr sjóðnum, alls rúmar 266 milljónir sem er hækkun um rúmar 44,6 milljónir milli ára.
Vert er að minna enn og aftur á samstarfssamning sem félagið er með við SÍMEY með það að markmiði að skapa enn fleiri möguleika fyrir félagsmenn til að sækja sér fræðslu og auka við starfstengda hæfni sína.
SÍMEY býður upp á fjöldamörg námskeið sem eru bæði starfstengd og tengd áhugamálum hvers og eins. Áhugasamir geta kíkt á www.simey.is til að sjá framboð námskeiða.
Breytingar urðu á reglum fræðslusjóðanna þriggja fyrr á árinu. Samþykkt var í stjórnum sjóðanna að félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu tvö ár eiga rétt á styrk allt að kr. 260.000,- eða síðustu þrjú ár eiga rétt á allt að kr. 390.000,- eins og verið hefur fyrir eitt samfellt nám eða námskeið samkvæmt nánari reglum sjóðsins. Uppsafnaður réttur skerðist ekki hafi félagsmaður fengið styrk undir kr. 50.000 á tíma uppsöfnunar. Sá styrkur kæmi þó til frádráttar frá hámarki.
Stjórn Landsmenntar samþykkti að hækka hlutfall einstaklingsstyrkja úr 80% í 90%, þó að hámarki kr. 130.000 á ári. Stjórnir Sveitamenntar og Ríkismenntar samþykktu að falla frá hlutfallsstyrkjum til einstaklinga og veita alltaf 100% styrki, þó að hámarki kr. 130.000 á ári. Tóku þessar breytingar á reglum gildi þann 1. janúar sl.
1.054 félagsmenn, 560 konur og 494 karlar, fengu einstaklingsstyrki úr sjóðunum. Þetta er aukning um 23 félagsmenn frá árinu áður. Upphæðin sem greidd var hækkaði um tæpar 6 milljónir og var rúmar 72,2 milljónir.
Á nýja vefnum okkar má finna aldursdreifingu styrkþega og yfirlit yfir helstu námskeið. Tengiliður við menntasjóðina er Aðalbjörg G. Hauksdóttir og hefur hún einnig umsjón með félagslegri fræðslu hjá félaginu.
Tryggvi varaformaður sér um starfs- og tómstundanámskeið sem félagið heldur. Endilega hafið samband við hann ef þið eruð með hugmynd um námskeið.
Nýting orlofshúsa hefur verið mjög góð. Félagið á núna 22 orlofshús og sex orlofsíbúðir, auk þriggja sjúkraíbúða. Nýjasta orlofshúsið bættist við í vetur þegar stórglæsilegt hús í Húsafelli í Borgarfirði bættist í hópinn. Auk húsa og íbúða sem eru í eigu félagsins vorum við með orlofsbústaði víðsvegar um landið í skiptum fyrir orlofshús á Illugastöðum auk leigubústaða.
Ég vil minna á að gæludýr eru stranglega bönnuð í öllum húsum og íbúðum félagsins.
Fyrirtækið Sólar ehf. hefur umsjón á íbúðum félagsins á höfuðborgarsvæðinu. Leigjandi þarf ekki að þrífa íbúðina eftir leigutíma, en auðvitað þarf að skila henni fullfrágenginni og snyrtilegri. Leigutakar þurfa sjálfir að þrífa orlofshúsin áður en þeim er skilað.
Best er að skilja við hús og íbúðir eins og við viljum koma að þeim. Verði vanhöld á þrifum, að mati umsjónarmanns á viðkomandi svæði, má búast við að leigutaki þurfi að borga þrifagjald.
Félagar! Höfum í huga að orlofshúsin eru sameign okkar allra og því er nauðsynlegt að við sameinumst um að ganga um þau með því hugarfari.
Félagið úthlutaði 300 orlofsstyrkjum sem við köllum “Orlof að eigin vali”, hver styrkur var að hámarki 26.000 krónur.
Í fyrra var boðið upp á tvær ferðir fyrir félagsmenn, en í ár eru þær þrjár. Uppselt er í ferð til Færeyja í september, en í júlí verður boðið upp á dagsferð fyrir eldri félagsmenn og dagsferð í Kerlingarfjöll fyrir alla í ágúst. Nánar má fræðast um þessar ferðir á heimasíðu félagsins.
Eins og áður er alltaf mikið um fundi hjá félaginu, m.a. í aðalstjórn og deildarstjórnum, í svæðisráðum, trúnaðarráði og samninganefnd, vinnustaðafundir, fundir með einstökum hópum um tilfallandi mál og síðan eru starfsmenn oft kallaðir til aðstoðar við lausn ýmissa mála á vinnustöðum. Fjölmargir aðrir fundir hafa verið haldnir, t.d. með trúnaðarmönnum um ýmis mál. Einnig mættu fulltrúar félagsins á ýmsa aðra fundi fyrir hönd þess.
Tveir fundir voru haldnir í trúnaðarráðinu, sex í samninganefnd og þá hélt uppstillingarnefnd tvo fundi. Það verður að viðurkennast að því miður var mun erfiðara að fá fólk til að gefa kost á sér í trúnaðarráð en undanfarin ár.
14 fundir voru haldnir í stjórn félagsins þar sem fjölmörg mál voru tekin fyrir. Vert er að benda á að stjórnarmenn fá afhent á hverjum fundi uppfært yfirlit yfir rekstur félagsins. Þannig veit stjórnin alltaf hvernig staðan er miðað við áætlun sem gerð er í upphafi hvers árs. Á aðalfundarvefnum má finna helstu mál sem tekin voru fyrir á stjórnarfundunum.
Á hverju ári eru haldnir nokkrir almennir félagsfundir á þéttbýlissvæðunum utan Akureyrar, engin breyting varð á því þetta starfsárið.
Ég minntist áðan á vinnustaðafundina og stöðuna á þeim. Á slíkum fundum er gott að miðla upplýsingum til félagsmanna og því tek ég forskot á sæluna og hvet trúnaðarmenn til að vera duglegir að halda slíka fundi og fá starfsmenn félagsins á þá.
Aðalfundir starfsgreinadeildanna fóru fram í byrjun febrúar. Ágæt mæting var á fundina sem tókust mjög vel. Í upphafi var sameiginleg dagskrá þar sem Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY, var með fyrirlestur um markmiðasetningu. Skýrslur stjórna má finna á heimasíðu félagsins. Formenn og vaformenn deilda eru sjálfkjörnir í stjórn félagsins.
45. þing ASÍ, eða framhald af því, fór fram í apríl í Reykjavík og áti félagið þar 10 fulltrúa. Á þinginu var m.a. stefna sambandsins til næstu tveggja ára mörkuð auk þess sem ný forysta var kjörin.
ASÍ-UNG hélt sitt árleg þing í september síðastliðinn og átti félagið þar tvo fulltrúa. Hún Elsa Hrönn Gray Auðunsdóttir frá Einingu-Iðju var kjörin í aðalstjórn.
Fulltrúaráðsfund Alþýðusambands Norðurlands fór fram á Illugastöðum í Fnjóskadal í september. Félagið átti rétt á að senda þrjá fulltrúa og ásamt mér sátu fundinn Tryggvi varaformaður og Aðalbjörg þjónustufulltrúi sjóða félagsins.
9. þing SGS fór fram í október og átti félagi þar 20 fulltrúa. Umræður um kjaramál voru áberandi á þinginu enda var annasamur kjarasamningavetur framundan. Samþykktar voru sjö ályktanir á þinginu og má finna þær allar á heimasíðu félagsins. Ég var kjörin til að sitja áfram í framkvæmdastjórn SGS næstu tvö árin, en ég var ekki eini félagsmaður Einingar-Iðju til að hljóta brautargengi í kosningum á þinginu því Tryggvi varaformaður kjörinn varamaður í framkvæmdastjórn. Hann var einnig kjörinn í tvær fastanefndir sambandsins fyrir starfstímabilið 2023-2025; laganefnd og kjörnefnd. Þá var Rósfríð, Skráningar- og innheimtustjóri Einingar-Iðju, kjörin sem annar skoðunarmaður ársreikninga SGS.
Nánari umfjöllum um alla þessa fundi og þing má finna á nýja vefnum okkar undir liðnum aðalfundargögn.
Undanfarin ár hefur félagið gefið út þrjú blöð ár hvert og dreift um félagssvæðið. Í byrjun árs var ákveðið að blaðið yrði aðeins gefið út rafrænt. Þessi ákvörðun var bæði tekin vegna umhverfissjónarmiða og vegna breytinga á póstþjónustu en um áramótin hætti Pósturinn alfarið að dreifa fjölpósti. Öll blöðin lifa áfram á vef félagsins, hvort sem þau hafa komið út á pappír eða ekki.
Heimasíðan var eins og áður vel virk og mjög vel sótt af félagsmönnum og öðrum. Félagið er líka á Facebook og svo detta líka inn ýmsar tilkynningar og ábendingar á Instagram síðu félagsins þannig að það er um að gera að fylgjast líka vel með henni. Ef þið viljið koma einhverjum ábendingum varðandi hana til okkar þá er best að hafa samband við hann Ödda.
Við hvetjum alla félagsmenn til að nota Mínar síður félagsins, en þar má t.d. sækja rafrænt um styrki sem í boði eru í sjúkrasjóði og í fræðslusjóði.
Ég hvet félagsmenn til að skrá sig inn til að prófa síðuna. Ef þið lendið í vandræðum með innskráninguna þá er starfsfólk félagsins boðið og búið að aðstoða ykkur. Félagsmenn hafa aðgang að tölvu í afgreiðslunni á Akureyri þar sem þeir geta sent inn rafrænar umsóknir eða sótt um orlofskosti. Starfsmenn félagsins á Dalvík og í Fjallabyggð eru einnig tilbúnar til að aðstoða þá sem til þeirra koma að senda inn rafrænar umsóknir og panta eða sækja um orlofskosti.
Við þurfum að hafa réttar bankaupplýsingar til að geta borgað út styrki úr sjóðum félagsins og símanúmer og netfang félagsmanna til að hafa samband ef þörf krefur. Ég hvet ykkur til að kíkja þarna inn og kanna þessar upplýsingar og laga ef þarf.
Við sem störfum á skrifstofunum þökkum fyrir öll samskiptin á árinu og vonum að okkur hafi tekist að greiða úr sem flestu af því sem komið var með til okkar, hvort sem var í heimsóknum, síma eða á neti.
Ég vona að við munum áfram eiga góð samskipti og berum gæfu til að gera góða hluti á komandi starfsári.
Að lokum vil ég þakka öllum sem ég hef starfað með á árinu fyrir samstarfið.
Takk fyrir mig og takk fyrir hönd starfsmanna félagsins.